Samþætt þjónusta í þágu farsældar barna

Farsæld barna eða samþætting þjónustu í þágu farsældar barna – byggir á lögum sem gilda fyrir öll sveitarfélög, stofnanir og þjónustuveitendur sem starfa með börnum og ungmennum um allt land.

Lögin, sem oft eru nefnd farsældarlögin eða lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, hafa það markmið að efla þjónustu við börn og fjölskyldur með því að stuðla að nánu samstarfi þeirra aðila sem koma að málefnum barna.

Með lögunum er tryggt að börn og foreldrar fái viðeigandi aðstoð á réttum tíma og frá réttum aðilum. Þegar þjónustan er tengd saman og unnið er í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir fjölskyldur að fá samfellda og viðeigandi þjónustu.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Farsældar barna, einnig eru þar skýringar á hugtökum

Samkvæmt lögum nr. 40/2024 um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ hefur sveitarstjórn heimild til að fela framkvæmdanefndinni ábyrgð á ákveðnum verkefnum sveitarfélagsins.

Grindavíkurbær nýtti þessa heimild í ágúst 2024 og fól framkvæmdanefndinni Grindavíkurnefnd ábyrgð og framkvæmd lögbundinna verkefna sveitarfélagsins á grundvelli laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Þetta þýðir að Grindavíkurnefnd ber nú ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu í samræmi við þessi lög, sem miða að því að tryggja börnum og fjölskyldum samfellda og samþætta þjónustu.

Börn sem eiga lögheimili í Grindavík geta sótt um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hjá þjónustuteymi Grindvíkinga. Þjónustuteymið sér um framkvæmd samþættingar og veitir foreldrum og forsjáraðilum ráðgjöf og stuðning.

Hægt er að sækja um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna með því að senda póst á radgjöf@grn.is eða hringja í síma 545-0200