Endurreisn Grindavíkur
Jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa verið viðvarandi frá árinu 2020 og náðu hámarki með atburðum árið 2023 sem höfðu veruleg áhrif á samfélagið í Grindavík. Íbúar hafa síðan búið við mikla óvissu um framtíð bæjarins. Þrátt fyrir þessar aðstæður hefur samfélagið og atvinnulífið sýnt aðdáunarverða seiglu.
Samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna er endurreisn samfélaga eftir hamfarir ferli ákvarðana og aðgerða sem miðar að því að endurheimta eða bæta lífsskilyrði samfélags sem lent hefur í áfalli. Grindvíkingar eru hryggjarstykkið í endurreisnarstarfi bæjarins í samstarfi við ríkisvaldið, sérfræðinga og aðra hlutaðeigandi aðila.
Jarðhræringarnar sem hófust í nóvember 2023 hafa gert ljóst að ekki dugar að leysa eingöngu brýn verkefni til skamms tíma. Þörf er á að horfa til lengri tíma með áherslu á endurreisn og framtíðarþróun Grindavíkur. Þróun mála kallar á að áherslan færist smám saman frá viðbragðsaðgerðum yfir í stefnumótun sem byggir á samhæfingu og virku samráði við samfélagið. Alþjóðleg reynsla og rannsóknir á sviði endurreisnar sýna að slíkt ferli þarf að hefjast þótt náttúruvá sé ekki að fullu lokið. Á sama tíma verður að hafa í huga að áætlanir um endurreisn þurfa ávallt að taka mið af áframhaldandi jarðhræringum og þeirri óvissu sem þeim fylgir.
Fjölmörg verkefni hafa verið unnin af ólíkum aðilum síðustu misseri. Nú er mikilvægt að móta samræmda rammaáætlun um endurreisn. Forsenda árangurs er að rammaáætlunin byggi á gagnsæi, sameiginlegri sýn og virkri þátttöku Grindvíkinga. Samhliða verður að leita til sérfræðinga og alþjóðlegra aðila til að tryggja að ferlið byggi á bestu fáanlegu þekkingu og alþjóðlegri reynslu. Með því móti verður lagður traustari grunnur að framtíð bæjarins.
Í lögum um Grindavíkurnefnd er kveðið á um að nefndin skuli meðal annars vinna að áætlunum sem miða að endurreisn og uppbyggingu samfélagslegra verðmæta sveitarfélagsins. Slíkar aðgerðaáætlanir taka bæði til styttri og lengri tíma og fjalla um það hvernig hægt er að styðja við Grindvíkinga, styrkja innviði og efla samfélagið.
Í þessu samhengi hefur nefndin unnið að fjölbreyttum aðgerðaáætlunum sem miða að endurreisn og uppbyggingu samfélagslegra verðmæta, m.a.:
· aðgerðaáætlun um innviði, viðhald og framkvæmdir,
· stuðning við atvinnulífið,
· viðbótarhúsnæðisstuðning fyrir tekju- og eignaminni Grindvíkinga,
· aðgerðaáætlun um farsæld og sálfélagslegan stuðning við Grindvíkinga.
