Nov 6, 2025
Stuðningur við rekstur Slökkviliðs Grindavíkur
Grindavíkurnefnd og Grindavíkurbær hafa gert þjónustu- og samstarfssamning um rekstur Slökkviliðs Grindavíkur. Samningurinn gildir til ársloka 2026.
Fyrir rýmingu Grindavíkur í nóvember 2023 var slökkvilið bæjarins rekið sem útkallslið eins og í öðrum sveitarfélögum af sambærilegri stærð. Útkallsvaktir voru mannaðar slökkviliðsmönnum sem bjuggu á staðnum. Eftir að jarðhræringar hófust breyttust forsendur til þessa rekstrar talsvert. Annars vegar fluttu slökkviliðsmenn í burtu frá Grindavík og hins vegar bættust við ýmis verkefni sem þörf var á að slökkviliðið annaðist í tengslum við yfirstandandi náttúruhamfarir. Komu þá Almannavarnir að rekstri slökkviliðsins og greiddu stóran hluta kostnaðar. Í apríl sl. dró úr aðkomu Almannavarna og var þá nauðsynlegt að finna traustari rekstrargrundvöll fyrir slökkviliðið við núverandi aðstæður og uppfylla þær kröfur sem gera verður til slökkviliða
Grunnhlutverk slökkviliðsins í samningnum er að annast brunavarnir, viðbrögð við eldsvoðum og uppfylla að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru til slökkviliðs skv. reglugerð um starfsemi slökkviliða. Þá er því falin verkefni sem tengjast yfirstandandi atburðum og verkefnum á sviði almannavarna í samráði við almannavarnasvið ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Rekstur slökkviliðsins verður nú á mönnuðum vöktum allan sólarhringinn.
Þegar aðstæður leyfa, verður starfsemi Slökkviliðs Grindavíkur færð yfir í hefðbundið útkallslið.