Dec 12, 2025
Rammaáætlun um endurreisn Grindavíkurbæjar
Grindavíkurnefnd hefur móttekið erindisbréf frá forsætisráðherra um gerð rammaáætlunar um endurreisn Grindavíkurbæjar. Um er að ræða vinnu við rammaáætlun um næstu skref í endurreisn Grindavíkurbæjar í kjölfar jarðhræringa. Þessi vinna fer nú af stað í samstarfi við Grindvíkinga.
Í erindisbréfinu segir meðal annars að markmið með gerð rammaáætlunar sé, í ljósi mats á stöðu og þörfum, að móta samræmda framtíðarsýn og ramma fyrir endurreisn samfélagsins, innviða og þjónustu. Með þessu verði fyrirsjáanleiki fyrir bæjarfélagið, íbúa og fyrirtæki aukinn og skýrari forsendur til að taka ákvarðanir um framtíð samfélagsins í Grindavík.
